Þeir sem vilja styrkja Frjálslynda lýðræðisflokkinn með fjárframlögum geta lagt inn á reikning: 
Kennitala: 541020-0630 Banki: 0301-26-000287
 • GEGN SPILLINGU - BEINT LÝÐRÆÐI - VERNDUM NÁTTÚRUNA

  Frjálslyndi Lýðræðisflokkurinn

 • GEGN SPILLINGU - BEINT LÝÐRÆÐI - VERNDUM NÁTTÚRUNA

  Frjálslyndi Lýðræðisflokkurinn

 • GEGN SPILLINGU - BEINT LÝÐRÆÐI - VERNDUM NÁTTÚRUNA

  Frjálslyndi Lýðræðisflokkurinn

 • GEGN SPILLINGU - BEINT LÝÐRÆÐI - VERNDUM NÁTTÚRUNA

  Frjálslyndi Lýðræðisflokkurinn

Málefnaskrá 

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn leggur áherslu á að styrkja grunnstoðir samfélagsins þar sem einstaklingurinn nýtur frelsis til athafna í gegnum sköpunarkraft og með frumkvæði að vopni. Við viljum efla beint lýðræði og nota þjóðaratkvæðagreiðslur í mikilvægum málefnum.

Einstaklingsfrelsi er lykillinn að gæfu þjóðarinnar ásamt lágum sköttum, friðsömum og haftalausum milliríkjaviðskiptum, frjálsri samkeppni og sem minnstum ríkisafskiptum. Fjárfestum, framkvæmum og framleiðum.

1. Persónuafsláttur

Persónuafsláttur hækkaður í 100.000 kr. og skattleysismörk um 300.000 kr. Persónuafsláttur er í dag 50.792 kr og nemur þá hækkunin 49.208 kr. á mánuði til hvers og eins launamanns. Skattleysismörkin verða hækkuð í um 300.000 kr. Áætlað er að við þetta myndi tekjuskattur dragast saman um 95 milljarða kr. en heildaráhrifin á ríkissjóð yrðu um 130 milljarða kr. Mikið af þessum tekjusamdrætti kæmi strax til baka í formi virðisaukaskatts í aukinni neyslu og restin brúuð með sparnaði hjá ríkinu ca. 5% á ári og hlunnindaskatti á sjávarútveg.

2. Þjóðaratkvæðagreiðslur

Flokkurinn vill notast við beint lýðræði í formi þjóðaratkvæðagreiðslna um öll umdeildustu málefni samtíðarinnar. Lokaorðið er þjóðarinnar.

3. Upprætum spillingu

Flokkurinn berst gegn spillingu í öllum grunnstoðum samfélagsins og verður að uppræta spillingu hvar sem hún finnst. Spilling er misnotkun á valdi eða stöðu þar sem einstakir aðilar eða fyrirtæki nýta aðstöðu sína á óeðlilegan hátt og hafa áhrif á stöðu mála sér í hag. Spilling eykur fátækt og grefur undan lýðræði og mannréttindum. Spilling veikir stjórnsýsluna og rýrir traust.  Ef allir borguðu það sem þeim bæri, þarf ekki að hækka skatta á almenning. Algeng dæmi um spillingu á Íslandi eru mannaráðningar, þöggun, mútur, skattsvik og sjálftaka. John Locke: Spilling er það er menn komast til valda með því að beita blekkingum.

4. Jarðasöfnun auðmanna stöðvuð

Uppkaup á bújörðum auðjöfra hvort sem er erlendra eða íslenskra  og eða leppfyrirtækja þeirra verði stöðvuð og mönnum gert skylt að halda  lögheimili á jörðum sínum, halda hlunninda jörðum vel við og borga skatta í sama héraði (danska leiðin). Erlendum fyrirtækjum verði hamlað að kaupa bújarðir á Íslandi og gjaldtaka á vegum í alfaraleið sem og aðgangur að náttúruperlum sem eru í einkaeigu bönnuð með öllu og almannaréttur sé ávallt virtur.

5. Sparnaður – báknið birt

Gagnsæi og aðhald verði aukið. Allar upplýsingar um greiðslur úr ríkissjóði skuli birtar á netinu. Tengsl ríkisstarfsmanna og fyrirtækja í viðskiptum við ríkið birt, ásamt innihaldi samninga. Ríkisstarfsmönnum, fjölskyldum þeirra og fyrirtækjum skyldum þeim sem eru eða ætla í viðskipti við ríkið verði sérstaklega flaggað. Öllum ríkisstofnunum gert að skila inn sparnaðartillögum fyrir næstu áramót.

6. Eftirlitsiðnaðurinn – báknið burt

Eftirlitsiðnaðurinn á Íslandi bólgnar út og kostar fyrirtæki og einstaklinga sífellt meiri fjármuni og fyrirhöfn með tilheyrandi kostnaði og hærra verði á vörum og þjónustu. Þetta verður að betrumbæta. Einstaklingar með snjallar viðskiptahugmyndir eiga ekki að þurfa að bíða árum saman eftir að ríkið veiti sitt leyfi.

7. Einyrkjar

Flokkurinn vill treysta umgjörð einyrkja og lítilla fyrirtækja sem svo oft gleymast. Einyrkjar, litlir rekstraraðilar og allur heimilisiðnaður eru mjög mikilvægir íslensku hagkerfi. Einyrkjar og lítil fyrirtæki geta skapað störf með skjótum hætti og útrýmt atvinnuleysi ef mönnum er skapaður réttur jarðvegur t.a.m. með lækkun tryggingagjalds og afnámi íþyngjandi reglugerðafargans.

8. Lækka launatengd gjöld og skatta

Við viljum lækka tryggingagjaldið á öll fyrirtæki og afnema það alveg á fyrirtæki með 5 starfsmenn eða færri. Lækka verður álögur á einstaklinga og fyrirtæki. Lægri skattar stuðla að meiri fjárfestingu og uppbyggingu og þar af leiðandi að fleiri atvinnutækifærum og atvinnuþátttöku. Snúa verður við hverri krónu í ríkisrekstri til að ná fram tilætlaðri hagræðingu í stað þess að bæta í hítina. 

9. Frelsum Julian Assange

Við skorum á Bandaríkjastjórn að fella niður allar ákærur á hendur rannsóknarblaðamanninum og stofnanda Wikileaks, Julian Assange. Ef Julian yrði fundinn sekur gæti hann átt yfir sér 175 ára fangelsisdóm en hann er í varðhaldi í Bretlandi að beiðni bandarískra stjórnvalda. Við teljum Julian saklausan og nú er nóg komið og ætlar flokkurinn að berjast fyrir því að Julian Assange verði látinn laus.

10. Rafíþróttir er málið

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn XO ætlar styðja við þróun allra rafíþrótta (e. esports) á Íslandi. Rafíþróttir er hratt stækkandi áhugamál ungs fólksins sem getur skapað ótal viðskiptatækifæri í framtíðinni og eins og Rafíþróttasamtök Íslands benda á: elur með sér jákvæða ávinninga fyrir iðkendur svo sem samvinnu, samskiptahæfni, viðbragðsflýti, vandamálalausn og hvers konar líkamlega þjálfun er stefnir að því að auka líkamlegt og andlegt atgervi, heilbrigði og almenna hreysti ásamt fleiri ávinningum þegar þær eru stundaðar markvisst." XO vill styðja við allt grasrótarstarf á sviði rafíþrótta á Íslandi í samstarfi við Rafíþróttasamtök Íslands, foreldra og kennara. Flokkurinn styður heilshugar allar skapandi greinar og telur þær hafa bjarta framtíð á Íslandi ef vel er haldið á spöðunum.

11. Lækka virðisaukaskatt (11% VSK)

11% virðisaukaskattur verði á allri útseldri vinnu, hvort sem það er á hárgreiðslustofu, hjá nuddara, fá heim pípara, rafvirkja eða málara – sem sagt öll útseld vinna aðeins 11% VSK.

12. Áskorun Helga í Góu

“Það á enginn að þurfa að búa fjarri maka sínum á efri árum jafnvel þó annar aðilinn þurfi umönnun en hinn ekki. Engu að síður er það veruleiki margra eldri hjóna á Íslandi. Þrátt fyrir að lífeyrissjóðunum hafi verið heimilt að fjárfesta í íbúðarhúsnæði síðan 2011 hefur enn enginn sjóður fjárfest í húsnæði fyrir aldraða. Ávallt er borið við kröfu um ávöxtun lífeyrissjóðsgjalda. Staðreyndin er að ekki þyrfti nema brot af vaxtatekjum þeirra í þetta verkefni. Fasteignir eru góð fjárfesting með mikla arðsemi. En mikilvægasta arðsemi lífeyrissjóðs ætti að vera sú að sjóðfélagar búi við öryggi á ævikvöldinu. Við skorum á lífeyrissjóðina að fjárfesta í byggingu mannsæmandi húsnæðis fyrir aldraða sem uppfyllir sanngjarnar kröfur um þægindi og einkalíf.”

13. Enga vegtolla á Ölfusárbrú

Flokkurinn er alfarið á móti vegtolli sem verður lagður á vegfarendur á þjóðvegi 1 í  áratugi til að komast yfir Ölfusárbrú. Þetta er ekkert annað en ósanngjarn landsbyggðaskattur sem leggst þyngst á sunnlendinga og rýrir verð fasteigna á svæðinu og hefur neikvæð og hamlandi áhrif á atvinnulíf og allt Suðurland. Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn mun aldrei leggja eina krónu á vegfarendur í formi vegtolla á alfaraleið á þjóðvegum landsins.

14. Upprunavottorð fjármagns

Krefjast verður upprunavottorðs erlends fjármagns fyrir þá aðila sem hyggja á fjárfestingar hér á landi, hvort sem þeir eru íslenskir eða erlendir aðilar.

15. 30% af Íslandsbanka afhent án greiðslu

Flokkurinn vill afhenda öllum íslenskum ríkisborgurum sem fæddir eru á árinu og þeim sem eldri eru hlutabréf í Íslandsbanka án greiðslu. Búið er að selja á útboði 35% af bankanum til 25,000 hluthafa og viljum við nú afhenda 370,000 ríkisborgurum 30% í bankanum án greiðslu. Eftir afhendingu ætti ríkissjóður eftir 35% í bankanum sem yrði ekki selt.

16. Landsvirkjun

Flokkurinn alfarið á móti  sölu á Landsvirkjun eða dótturfyrirtækjum hennar. Eignarhald á orku og vatni er hjá þjóðinni og verður ekki einkavætt á okkar vakt.

17. Samfélagsbanki - Landsbanki

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn vill  gera Landsbankann að samfélagsbanka sem þjónustar almenning og lítil og meðalstór fyrirtæki.

18. Hlutabréfamarkaður- fjármagnstekjuskattur

Endurheimta þarf traust og tryggja að smærri fyrirtæki eigi greiðan aðgang að hlutabréfamarkaði án yfirþyrmandi regluverks. Blásið verði lífi í íslenskan hlutabréfamarkað og fjármagnstekjuskattur einstaklinga afnuminn af hagnaði á sölu íslenskra hlutabréfa á markaði.

19. Fullveldi Þjóðarinnar

Fullveldi þjóðarinnar skal ávallt vera tryggt í stjórnarskrá. Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn er alfarið á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu.

20. Sendiráð

Fækka má sendiráðum erlendis mikið og draga úr kostnaði utanríkisþjónustunnar. Ef valdamestu menn veraldar geta fundað með fjarfundarbúnaði  þá getur íslenska utanríkisþjónustan einnig látið sér slíkt nægja.

21. Evrópusambandið - ESB

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn er á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu enda hefur inngöngu verið líkt við það að ganga inn í brennandi hús af okkar helsta pólitíska sérfræðingi um Evrópumál. Flokkurinn vill að Alþingi dragi Evrópusambandsumsóknina formlega til baka.

22. Fríverslunarsamningar

Klára verður fríverslunarsamning við Bandaríkin á kjörtímabilinu. Einnig verður að laga samskiptin við Rússa en þar eru gríðarmiklir og áratuga gamlir viðskiptahagsmunir í húfi sem Íslendingar eru á góðri leið með að klúðra. Friðsöm og haftalaus milliríkjaviðskipti er uppskrift að góðum efnahagsbata.

23. Samkeppnislagabrot – sektir

Breyta verður sektar fyrirkomulagi á brotum á samkeppnislögum. Í dag geta fyrirtæki sem hafa orðið uppvís af samkeppnislagabrotum gert sátt og greitt sekt í ríkissjóð. Nýverið samdi Eimskip um milljarða sektargreiðslu. Sektir á samkeppnismarkaði fara á endanum út í verðlagið með tilheyrandi verðhækkunum og þykir okkur skynsamlegra að gera stjórnendur fyrirtækja ábyrga til að koma í veg fyrir samráð á markaði. Í dag er t.d. bílstjóri sektaður persónulega fyrir hraðakstur en ekki fyrirtækið sem hann vinnur hjá.

24. Schengen

Þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin við fyrsta tækifæri um veru okkar í Schengen. Bretar og Írar eru t.d. ekki í Schengen enda eyjur með náttúrulegum landamærum.

Löggæsluyfirvöld hafa margoft bent á vankanta þess að vera í Schengen með tilheyrandi innflutningi glæpagengja á eiturlyfjum og glæpum sem þeim tengjast og einnig mansali og peningaþvætti.

25. Einföldun reglna

Slíta verður fjötrana af atvinnulífinu með markvissum hætti. Leita verður einföldustu leiða við innleiðingu reglugerða EES/ESB og innleiða ekki þær reglugerðir sem stangast á við hagsmuni Íslendinga. Flækjustig í regluverki eru mörg og átak verður að gera í samræmingu og stafrænni afgreiðslu.

26. Orkupakki 4

Orkupakka 4 er hafnað og mun flokkurinn beita sér í að undið verði ofan af fyrri orkugjörningum og þeir settir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í stuttu máli var orkuauðlind Íslands dregin inn í EES samninginn og látnar gilda reglur um samkeppni á innri markaði um frelsin fjögur en þar er átt við frelsi í viðskiptum, fjármagnsflutningum, þjónustu og flutningi fólks á milli landa. Þetta er afar merkilegt, því fjórfrelsið snérist ekki um landbúnað, sjávarútveg eða orku. Sjávarútvegur er t.d. ekki inn í EES samningnum nema sem viðauki um tollaniðurfellingar.

27. Mengunarkvótar

Ísland er grænasta land heims samkvæmt MIT eins virtasta tækniháskóla heims. Þessari stöðu  skulum við halda og vera ávallt í  fararbroddi í loftslagsmálum. Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn vill að hætt verði sölu á kolefniskvóta eða svökölluðum mengunar aflátsbréfum til mengandi erlendra stórfyrirtækja og þjóðin fái að njóta áfram sannmælis í erlendum samanburði í loftslags umræðunni.

28. Háhraðatenging

Flokkurinn vill landið allt fulltengt og nýjustu háhraðatengingu á boðstólum óháð búsetu. Öflugir og traustir fjarskiptainnviðir eru forsenda búsetu og fjölbreyttrar atvinnustarfsemi á landsbyggðinni.

29. Þjóðarleikvangur

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn vill byggja 15 - 25 þúsund manna þjóðarleikvang með opnanlegu þaki og tilheyrandi fjölda bílastæða. Mætti fara út fyrir borgina með þessa framkvæmd. Með slíkum framkvæmdum fjárfestum við í æskunni, heilbrigðu líferni og stolti íslensku þjóðarinnar. Íþróttir efla andlega heilsu þjóðarinnar.

30. Reykjavíkurflugvöll á Bessastaðanes

Reykjavíkurflugvöll viljum við hafa áfram á stór reykjavíkursvæðinu. Má nýta ýmsar góðar hugmyndir eins og að byggja nýjan flugvöll á Bessastaðanesi og út í Skerjafjörðinn, allt beintengt í allar áttir. Öryggi, greiðleika og þjónustu þarf að tryggja við landsbyggðina.

31. Sundabraut og Sundabrú

Sundabraut og Sundabrú er forgangsverkefni flokksins á komandi kjörtímabili. Sundabraut og Sundabrú eykur öryggi íbúa á höfuðborgarsvæðinu og dregur úr umferðarþunga á öðrum stöðum í borginni auk þess að framkvæmdin skapar mikinn hagvöxt til langs tíma. Hér er um að ræða góða innviðafjárfestingu sem borgar sig upp hratt og örugglega.

32. Akureyri - Gullfoss, Vestfirðir, Þjóðvegur 1

Bundið slitlag milli Akureyrar og Gullfoss þ.e. Kjalveg. Kjalvegur (219 km.) eykur öryggi og bætir efnahag Norðlendinga. Flokkurinn vill einnig malbika fjölförnustu vegakafla á Þjóðvegi 1 á næsta kjörtímabili. Lausnin við vegablæðingum og auknu umferðaröryggi er að malbika þá vegi sem bera mesta umferðarþungan. Flýta þarf vegaframkvæmdum á Vestfjörðum til að tengja firðina betur við samgöngukerfi landsins.

33. Borgarlína

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn er alfarið á móti svokallaðri borgarlínu og teljum við það glórulaust að vaða út í svona framkvæmd án nokkurra haldbærra raka með miklum kostnaði ásamt margra ára umferðaröngþveiti. Hugmyndin okkar „Störf án staðsetningar" gerir „Borgarlínuna" úrelta hugmynd og sparar skattgreiðendum hundruðir milljarða.

34. Hampiðnaður

Flokkurinn er hlynntur hampframleiðslu og iðnaði tengdum henni t.d. CBD kannabídíól  framleiðslu. CBD er náttúrulegt lækningalyf aðallega unnið úr laufum og blómum iðnaðarhamps. Vill flokkurinn fylgja Danmörku í þessum efnum en þar í landi er mikil nýsköpun og gróska í hampiðnaði.

35. Lágt orkuverð

Ódýr raforka skal vera í boði fyrir íslenska nýsköpun, íslenskan iðnað og  garðyrkjubændur. Orkuverðið verði ekki hærra en meðalverð Landsvirkjunar til erlendrar stóriðju.

36. Leyniskjölin

110 ára leyniskjölin svokölluðu verði birt umsvifalaust svo almenningur sjái vinnubrögð stjórnmála elítunnar þar sem fyrirtækjum einstaklinga var skipt upp í „pony og pegasus" sem var munurinn á milli þess hvort þau fengu að starfa áfram eða voru yfirtekin af viðskiptabanka þeirra.

37. Öryrkjar

Örorkulaunakerfið verði endurskoðað frá grunni.
Örorkulaun skulu aldrei verða lægri en sem nemur framfærsluviðmiði Velferðarráðuneytis. Þó skal bæta við þau laun, útreiknuðum kostnaði sem hver einstaklingur hefur vegna sinnar fötlunar umfram heilbrigðan einstakling sem er mjög misjafn. Þar færi því fram aðal endurskoðunin á kerfinu, þ.e meta raunkostnað hvers og eins vegna fötlunar eða skerðingar. Atvinnutekjur skulu því aldrei skerða þann hlut launa einstaklings sem telst vera kostnaður vegna fötlunar eða skerðingar viðkomandi.

38. Kjör eldra fólks
Kjör eldra fólks Lífeyrislaun eldra fólks má aldrei skerða vegna tekna úr lífeyrissjóði. Lífeyrissjóður er okkar eign sem við höfum öll unnið fyrir og má á engan hátt skerða með tekjutengingum vegna launa úr almannatryggingakerfinu. Við lítum svo á að það sé þjófnaður á sparnaði fólks sem hafði ekki val um hvort það greiddi í þann sparnað eður ei. Eign í lífeyrissjóði var alltaf hugsuð sem viðbót við þau grunnlaun sem fólk ávann sér með sköttum í almenna kerfinu. Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn vill einnig að það verði stofnað sérstakt ráðuneyti fyrir eldri borgara og öryrkja. Það er skylda okkar og við verðum að hugsa vel um fólkið sem ruddi brautina og þá sem minna mega sín, en ríkisstjórnir fyrri ára hafa ekki náð tökum á vanda þessa fólks. Hafa þessir hópar ekki fengið lausn sinna mála á þessu kjörtímabili og það er ekki á dagskrá þessara flokka sem hyggjast halda áfram saman næstu fjögur árin að bæta hag þeirra.
39. Orkuskipti - Loftslagsmál

Þar sem nýjar reglur Evrópusambandsins koma til með að banna sölu á nýjum bensín og dísel bílum árið 2035 verða Íslendingar að bretta upp ermarnar  og  breyta yfir í rafmagnsbíla í mun hraðar en stjórnvöld ætluðu sér. Breytingarnar verða mun fyrr og það er eftir engu að bíða. Algjöra nýliðun í flota bílaleiganna ætti að setja strax í gang og leigja eingöngu út nýorkubíla. Stóriðjunni og Landsvirkjun verði gert að kolefnisjafna alla framleiðslu sína. Sölu á kolefniskvóta verði hætt eða svokölluðum mengunar aflátsbréfum til erlendra og innlendra fyrirtækja og þjóðin fái að njóta sannmælis í erlendum samanburði í loftslags umræðunni.

40. Auðlindir

Flokkurinn telur nauðsynlegt að koma á ákvæði  í stjórnarskrá lýðveldisins um að auðlindir þjóðarinnar og  afnotaréttur af þeim séu ævarandi sameign þjóðarinnar og að fullt verð verði innheimt fyrir aðgang að þeim.

41. Persónukjör

Flokkurinn er fylgjandi persónukjöri og vill beint kjör forsætisráðherra.  Jafnt vægi atkvæða verður að vera í landinu, ólíkt því sem nú er.

42. Fákeppni - hringamyndun

Fákeppni og einokun verður að uppræta úr íslensku viðskiptaumhverfi og setja verður lög um bann við hringamyndun. Tryggja verður frjálsa verslun í landinu og að ríkið dragi sig alfarið út úr smásölu/samkeppnisrekstri t.d. svokallaðri “Fríhöfn”

43. Heilbrigðismál og þjónusta

Gagnger endurskoðun þarf að fara fram á heilbrigðisþjónustu um land allt. Eftir að búnar voru til núverandi heilbrigðisstofnanir hringinn um landið, hefur þjónustu við fólk á landsbyggðinni markvisst verið skert. Efla þarf í hverjum fjórðungi aðgengi að sérfræðingum þar sem það hlýtur að vera hagkvæmara að færa til starfsfólk heldur en að stefna fólki sem þarf slíka þjónustu öllu til Reykjavíkur eða Akureyrar með tilheyrandi kostnaði.Taka verður saman þann kostnað sem er í núverandi kerfi þ.e kostnað sem sjúkratryggingar greiða fyrir ferðir til sérfræðinga eða minniháttar aðgerða sem vel væri hægt að gera í viðkomandi fjórðungi auk þess kostnaðar sem sjúklingar eru að verða fyrir sem er mikill og mjög vanmetinn. Það getur ekki talist eðlilegt að þvæla notendum þjónustunnar út og suður um landið, fjölda sem skiptir þúsundum ár hvert í stað þess mætti setja upp færanlegt lækna og hjúkrunarteymi sem sérhæfði sig í þeim verkefnum þar sem ekki er krafist hátæknisjúkrahúss. Víðast hvar er húsnæði fyrir hendi, en gæti þurft að endurnýja tækjabúnað. Þetta teymi starfaði þá eingöngu við þessa færanlegu þjónustu og yrði skipað þannig að sem flesta þjónustu yrði hægt að fá í heimabyggð.

44. Skoðanakannanir

Skoðanakannanir Koma verður skikki á skoðanakönnunarfyrirtækin í landinu sem undanfarin ár virðast misbeita áhrifum sínum með skoðanamyndandi hætti. Banna verður dæmdum mönnum t.d. fyrir markaðsmisnotkun að stjórna skoðanakönnunarfyrirtæki. Við í Frjálslynda lýðræðisflokknum viljum banna skoðanakannanir alveg, einum mánuði fyrir kosningar.

45. Lífeyrissjóðir

Stjórnir lífeyrissjóða verði kosnar af sjóðsfélögunum og lífeyrisréttindi verði erfanleg að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Beita má lífeyrissjóðunum í arðbærum innviðafjárfestingum svo þjóðin megi njóta. Bein innsköttun í sjóðina verði tekin upp og skattaskuld sjóðanna við ríkissjóð greidd. Finna verður hagstæð fjárfestingartækifæri innanlands fyrir sjóðina önnur en hlutabréfakaup í einkafyrirtækjum. Ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán verði skattfrjáls.

46. Afnám verðtryggingar

Verðtryggingu verði hætt á húsnæðislánum og mönnum auðveldað að skipta úr verðtryggðum húsnæðislánum í óverðtryggð lán, sem þýðir að einstaklingar þurfi ekki að fara á ný í greiðslumat.

47. Skipulögð glæpastarfsemi - löggæsla efld

Fjölga þarf lögreglumönnum, hækka laun og bæta öryggi og starfsumhverfi þeirra. Setja verður sérstök lög sem taka á skipulagðri glæpastarfsemi. Viðurlög verði þyngd í hegningarlögum á hverskonar skipulagðri brotastarfsemi svo sem auðgunarglæpum, vopnuðum ránum, þjófnaði, morðum, barnaníði, nauðgunum, mansali, þrælahaldi, hafa áhrif á vitni eða hótanir, dópsmygli, dópframleiðslu og sölu, hvers konar fjárglæpastarfsemi, peningaþvætti, fjárdrætti, gagnafalsi, peningafalsi, mútur, valdníðslu, ólöglegri lánastarfsemi, okri og fjárkúgun svo eitthvað sé nefnt.

48. Réttur skuldunauta og fjölskylduvernd

Lánardrottinn og skuldunautur verða að leita lausna saman. Engin eign fari á uppboð nema lánardrottinn og skuldunautur skipti söluverðinu eftir lánshlutfalli þ.e. upprunlegri prósentu. Sala eingöngu leyfð til þriðja aðila, sem þýðir að lánardrottinn getur aldrei boðið í eign sem hann lánaði til, þó svo að hann sé á fyrsta veðrétti. Vernda þarf fjölskyldur samfélagsins.

49. Okurvernd

Viðskipta- og neyslulán, yfirdráttur og lausaskuldir einstaklinga og fyrirtækja sem eru komin á endastöð verði eingöngu hægt að rukka inn með að hámarki 50% álagi og ekki krónu meira. Dæmi: A skuldar 10.000 kr. og fer í vanskil, hámarks innheimtukrafa gæti þá numið 15.000 krónum með lögfræðikostnaði, vöxtum, verðbótum og dráttarvöxtum.

50. Innflytjendamál

Skoðað verði hvort Ísland geti farið þá faglegu leið sem Ástralía, Kanada og Nýja Sjáland hafa valið sér í innflytjendamálum. Þessi ríki nota punktakerfi sem byggir á fjölbreyttum viðmiðum eins og  aldri umsækjanda, tungumálakunnáttu, menntun, sérfræðikunnáttu auk þess sem starfstilboð frá atvinnurekanda vegur þungt. 

51. Störf án staðsetningar

Öll störf ríkis án staðsetningar. Allir fundir á vegum ríkisstofnana ættu að vera aðgengilegir með fjarfundabúnaði. Störf án staðsetningar minnkar losun á hættulegum gróðurhúsalofttegundum. Dreifð byggð er mikilvægur hlekkur landgræðslu að ná þeim loftslagsmarkmiðum sem við höfum lofað. Það ætti að vera  raunverulegur valkostur fyrir ungt fólk að búa utan höfuðborgarsvæðisins. Meiri tími með fjölskyldunni, svegjanlegur vinnutími, betri nýting allra innviða ásamt viðráðanlegra húsnæðisverði. Minni mengun, betri nýting húsnæðis, mikill sparnaður, lægri skattar, sparar gjaldeyrir og meiri lífsgæði. Minni bílaumferð og minni þörf fyrir bílastæði.

52. Erlendir námsmenn

Erlendir námsmenn í leyfi frá námi hvaðan sem þeir koma ættu auðveldlega að geta sótt um takmarkað atvinnuleyfi á Íslandi til að kynnast íslenskri menningu, landi og þjóð.

53. Íslendingar erlendis

Tryggja verður kosningarétt íslenskra ríkisborgara erlendis. Brottfluttir íslenskir ríkisborgarar ættu að geta kosið án hindrana og ryðja verður úr veginum öllum takmörkunum. Lög um ríkisborgararétt erlendra maka verði einfölduð. Réttindi barna verði tryggð og tryggt að þau geti haldið sínum ríkisborgararétti. Klára verður tvísköttunarsamninga þar sem þá vantar og bæta vinnubrögð LÍN.  Fella niður tvískattlagningu og skerðingu bóta/lífeyrisgreiðslna Íslendinga sem búa erlendis. Auðvelda  endurnýjun vegabréfa og lækka þröskulda þegar flutt er aftur til Íslands.

54. Fjölmiðlar

Fjölmiðlafrelsi verður að vera á Íslandi. Almenningi verði gefinn kostur á að styðja við alla fjölmiðla á skattaskýrslu sinni. Það þýðir að almenningur getur látið fé renna til eins eða fleiri fjölmiðla að eigin ósk. Fjölmiðlastyrkjakerfi ríkisins við einkarekna fjölmiðla verði lagt niður. Tryggja skal í hvívetna dreift eignarhald á fjölmiðlum. Fjölmiðlar í eigu hagsmunatengdra fyrirtækja skulu þurfa að auglýsa tengsl sín sérstaklega við hagsmunatengdar fréttir í sama miðli. Fríblöð verði látin borga endurvinnslugjald á hvert eintak. Misnotkun stórfyrirtækja, auðmanna og leppa þeirra í íslenskri fjölmiðlaflóru verður að uppræta. Hverskonar skerðing á skoðanafrelsi, málfrelsi eða tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Þessari þróun verður að snúa við og vinda skal ofan af öllum tilraunum stjórnvalda síðustu ára í þessa veru. Takmörkun á tjáningarfrelsi má  aldrei líðast. Við leggjum ennfremur til 300 kr. urðunargjald fyrir hvert eintak af dagblöðum – til verndar náttúrunnar sem útgefendur myndu greiða.

55. FO

Ofbeldi er það þegar einhver gerir eitthvað sem meiðir þig eða lætur þér líða illa. Það kallast ofbeldi í nánu sambandi eða heimilisofbeldi þegar sá sem beitir ofbeldinu er skyldur eða tengdur þér, til dæmis maki, fyrrverandi maki, fjölskyldumeðlimur eða umönnunaraðili. Ofbeldi getur átt sér stað óháð kyni, aldri, kynhneigð eða hverju öðru." Heimild 112.  Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn vill auknar fjárveitingar í kennslu og forvarnir gegn ofbeldi, einnig er kominn tími á að dómstólar taki ofbeldismál föstum tökum með strangari dómum.

56. Stjórnmálaflokkar

Opinberir styrkir verði lagðir af til stjórnmálaflokka. Árið 2020 fengu stjórnmálaflokkarnir 755 milljónir kr. Það er siðferðilega rangt að ríkisvæða stjórnmálaflokka. Þetta er spilling af hæstu gráðu, sjálftaka og býr til ríkisrekið stjórnmálabákn og flokkarnir hætta að hlusta á grasrótina. Til þess að uppræta spillt flokkakerfi vill Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn taka upp persónukjör er kosið er til Alþingis.

57. Hvar er nýja stjórnarskráin?

Flokkurinn aðhyllist að tillögur stjórnlagaráðs verði notaðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Flokkurinn vill notast við þjóðfundafyrirkomulag á þessari vegferð þar sem þátttakendur eru valdir með slembiúrtaki. Flokkurinn vill tryggja fullveldi landsins í stjórnarskrá lýðveldisins. Þjóðin verði stjórnarskrárgjafinn.

58. Þjóðgarðar

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn er alfarið á móti nýju frumvarpi stjórnvalda um hálendisþjóðgarð. Náttúra Íslands er stórkostleg og ein af frumskyldum Íslendinga er verndun náttúru og umhverfis. Huga verður vel að náttúruperlum landsins, vernda skal og stýra aðgangi ferðamanna inn á viðkvæm svæði. Leggja má og endurgera gamla slóða og þjóðleiðir. Endurbæta þarf innviðafjárfestingu í ferðaþjónustu svo allir fái notið gæða og fegurðar landsins. Ennfremur verður að stoppa þessa stóru trukka og rútur frá meginlandinu sem koma hingað með óvana bílstjóra og leiðsögumenn sem koma óorði á stéttina með utanvegaakstri sínum í íslenskri náttúru

59. Orðuveitingar

Hefðbundnar orðuveitingar verði aflagðar. Þurrka verður út tildur og sýndarmennsku í opinbera geiranum. Íslendingar eru afkomendur bænda og sjómanna og við getum verið stolt af því. Orðu á sá skilið sem unnið hefur hetjudáð eða bjargað mannslífi.

60. GPI framfarastuðull

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn álítur að ekki sé nóg að líta eingöngu til hagvaxtar þegar lífsgæði þjóðfélaga eru mæld. Nota má einnig (The genuine progress indicator)  eða GPI framfarastuðul sem mælistiku á sameiginleg lífsgæði. GPI framfarastuðullinn tekur ýmislegt til greina eins og misskiptingu tekna, heilsu og geðheilsu, aukinn frítíma og samvistir við fjölskyldu, mengun, matarsóun, menntun, endurvinnslu, fátækt, kostnað vegna umhverfisspjalla og ósjálfbæra nýtingu auðlinda o.s.frv.. Hagvöxtur eins og hann er mældur á Íslandi í dag hefur sýnt undanfarin ár skakka mynd en mikill hluti hagvaxtarins er aukin neysla almennings. Lagt er til að útreikningar og mælistikur sem meta lífsgæði verði safnað saman og fylgt eftir. Mæling framfarastuðulsins ætti að hvetja  til heilbrigðari og uppbyggilegri þjóðfélagsumræðu, betri nýtingu auðlinda og umgengni við náttúruna.

61. Grænt er gott

Allir Íslendingar eru náttúruunnendur í hjarta sínu og lögð verður áhersla á verndun íslenskrar náttúru. Stöðva þarf gróður- og jarðvegseyðingu með uppgræðslu og ræktun skjólbelta. Flokkurinn styður vistvænar fiskveiðar og verndun uppvaxtarsvæða nytjafiska. Vernda verður lífríki sjávar á grunnsævi við Ísland með öllum ráðum. Verndun hafsins gegn plastmengun og annarri mengun er eitt mikilvægasta hagsmunamál Íslendinga. Flokkurinn leggur áherslu á að njóta náttúrunnar án þess að ganga á möguleika komandi kynslóða til hins sama, stuðla að sjálfbærri notkun auðlinda til sjávar og sveita og þar með höldum við öllu landinu í byggð. Framtíð Íslands er samofin framleiðslu á mat, vatni, orku og blómlegri ferðaþjónustu. Ísland sem friðland óbeislaðrar náttúrufegurðar og dýralífs er fjársjóður framtíðarinnar.

62. Ímynd Íslands

Stöndum vörð um og pössum upp á að halda hreinni og ómengaðri ímynd Íslands fyrir okkur sem búum hér, gesti okkar, íslenska matvæla framleiðslu og íslenskt hugvit. Ímynd Íslands í dag er löskuð. Sala á kolefniskvóta verður að stöðva á svokölluðum mengunar aflátsbréfum til erlendra stórfyrirtækja. Þjóðin verður að fá að njóta sannmælis í erlendum samanburði. Vernda verður einnig orðspor okkar erlendis í viðskiptum og koma verður  í veg fyrir að íslensk stórfyrirtæki misnoti sér gott orðspor Íslands á alþjóðavettvangi eins og gerðist í hruninu og nú aftur í Færeyjum, Noregi og Namibíu.

63 Vatnið okkar

Íslendingar eru svo heppnir að eiga mikið af fersku vatni sem er takmörkuð auðlind víða um heim. Vatnsauðlindina verður að vernda fyrir komandi kynslóðir. Stjórnvöld verða að setja skýrar reglur um nýtingu og afnot auðlinda til þess að fyrirbyggja að skammtímahagsmunir ráði för.

64. Sjálfbær þróun

Styðja ber frumkvæði almennings og félagasamtaka sem vilja taka þátt í sjálfbærri þróun samfélagsins og mæta þörfum nútímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða. Stuðningur hins opinbera við félagasamtök er mikilvæg leið til að treysta þátttöku almennings við að ná þeim markmiðum í loftslagsmálum sem við höfum skrifað undir á alþjóða vettvangi og ætlum að standa við. Sjálfbær þróun snýst um að auka efnahagsleg verðmæti um leið og gæðum náttúrunnar er viðhaldið og mannréttindi efld.

65. Sjávarútvegur

Handfæraveiðar í strandveiðikerfi  verði  frjálsar fyrir báta 10 metra að lengd og styttri. Leyfa á sölu á fiski beint frá báti. Makrílveiðar verði frjálsar innan 10 sjómílna fyrir smábáta að 15 metrum. Stórútgerðarfyrirtæki og tengd fyrirtæki gætu ekki átt í öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum og rofið kvótaþakið á þann hátt, hvort sem er í einstökum fisktegundum (20%) eða heildaraflaþaki (12%). Útgerðin verður að fara eftir skattalögum og greiða 20% tekjuskatt af þeim hlunnindum sem útgerðinni er afhent árlega. Virðisaukaskattur verði settur á leiguverð kvóta. Stoppa verður hringamyndun  stórútgerðar í fyrirtækjarekstri.

66. Landbúnaður

Teknir verði upp sérstakir byggðastyrkir beint á lögbýli sem skapa a.m.k. eitt ársverk. Endurskoða tollasamninginn við ESB og hætta innflutningi á ófrosnum kjötvörum. Litið væri á það sem part af framlagi Íslendinga í baráttunni gegn útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Kaupendum bújarða verði gert  skylt að búa á jörðum sínum, halda þeim í rækt og greiða skatta í byggðarlaginu og eiga þar lögheimili -  danska leiðin. Garðyrkjubændur fái raforku á stóriðjuverði.

Landbúnaður

 • Teknir upp sérstakir byggðastyrkir beint á lögbýli sem skapa a.m.k. eitt ársverk.
 • Garðyrkjubændur fái raforku á stóriðjuverði.
 • Endurskoða tollasamninginn við ESB og hætta innflutningi á ófrosnum kjötvörum. Litið væri á það sem part af framlagi Íslendinga í baráttunni gegn útblæstri gróðurhúsalofttegunda.
 • Bændur gerðir útverðir þjóðarinnar og styrktir til landgræðslu, skjólbelta- og skógræktar til bindingar hættulegra gróðurhúsalofttegunda.
 • Kaupendum bújarða verði gert skylt að búa á jörðum sínum, halda þeim í rækt og greiða skatta í byggðarlaginu og eiga þar lögheimili - danska leiðin.

Sjávarútvegur

 • Stórútgerðin þarf að fara eftir  lögum um fiskveiðar þ.e. kvótaþakið.
 • Útgerðin verður að fara eftir skattalögum og greiða 20% tekjuskatt af þeim hlunnindum sem útgerðinni er afhent árlega.
 • Virðisaukaskattur verði settur á leiguverð kvóta.
 • Stoppa verður hringamyndun  stórútgerðar í fyrirtækjarekstri.
 • Handfæraveiðar eiga að vera frjálsar og leyfa á sölu “Beint frá báti”.
 • Brottkasti á afla verður að stöðva með hvötum.
 • Útræðisrétt sjávarjarða verði virtur á ný og staðfestur í lögum um stjórn fiskveiða. 

Störf án staðsetningar

 • Verkefnið er kolefnislosun (CO2) 14,2 milljónum tonna á ári á Íslandi 
 • Kolefnishlutlaust Ísland fyrir 2040.
 • Parísarsamkomulagið og aðrir loftslagssamningar sem stjórnvöld hafa skrifað undir verðum við að standa við.
 • 66% af allri kolefnislosun kemur frá landi eða 9,5 m/t á ári af heildarlosun  sem er 14,2 m/t á ári.
 • Losun gróðurhúsalofttegunda kemur frá landnotkun, framræstu votlendi og  landrofi.
 • Framlag hinna flokkana á þingi er skattlagning upp á 20 milljarða á ári til að losna við hausverkinn.
 • Nýir skattar t.d. grænir skattar, losunarskattar, urðunarskattar, umhverfisskattar, loftlagsskattar, plastpokakattar, kolefnisskattar o.s.frv. sjá dagsljósið.
 • Framlag Frjálslynda lýðræðisflokksins kostar ekki neitt, engir nýir skattar, bara ein ákvörðun sem leysir mörg mál.
 • Störf án staðsetningar kolefnisjafnar og minnkar  losun á hættulegum gróðurhúsalofttegundum.

Taktu þátt í flokkstarfinu

Ef þú hefur áhuga að taka þátt í að breyta framtíðinni til hins betra, láttu þá heyra í þér.

Hægt er að hafa samband við flokkinn með því að senda tölvupóst á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.  eða fylla út formið 

 

 

Styrkir

Þeir sem vilja styrkja Frjálslynda lýðræðisflokkinn með fjárframlögum geta lagt inn á reikning: 

 

Kennitala: 541020-0630

Banki: 0301-26-000287